Pistill frá formanni

Starfsemi Iðnfræðingafélagsins hefur verið í lágmarki á þessum Covid tímum.
Það hefur þó allri grunnstarfsemi verið sinnt að venju, það er að samþykkja umsóknir um að fá að kalla sig iðnfræðing.
Einnig hafa verið í gangi kærumál vegna orðalags í útboðum, þar sem reynt var að útiloka rafiðnfræðinga frá því að bjóða í raflagnateikningar, með ólögmætum hætti. Við munum fara nánar í gegnum þau mál hér á síðunni fljótlega.
Það dúkka reglulega upp spurningar um hvers vegna fólk eigi að vera í iðnfræðingafélaginu og greiða félagsgjöld þar, svo og spurninginn um hvað félagið geri.
Tilgangur félagsins er í grunninn mjög einfaldur, að halda utan um réttindi iðnfræðinga og sjá um að samþykkja umsóknir um að fá að nota titilinn Iðnfræðingur.
Það eru þó önnur mál sem koma gjarnan inn á okkar borð, svo sem að yfirfara námið við HR og fylgjast með breytingum á því, skoða leiðir til fjölbreyttara náms við t.d. HÍ, fylgjast með lagabreytingum og skoða hvort þær skaði Iðnfræðinga, fylgjast með að iðnfræðingar séu ekki útilokaðir í útboðsgögnum og ýmislegt fleira sem upp kemur.
Iðnfræðingafélagið er ekki stéttafélag, eins og t.d. RSÍ eða VM. Iðnfræðingafélagið er fagfélag, eins og t.d. FÍR (Félag Íslenskra Rafvirkja). Munurinn á FÍR og IFÍ er hins vegar sá að FÍR hefur bara rafvirkja sem félagsmenn og það liggur því beint við hjá þeim að starfa undir regnhlíf RSÍ.
Hins vegar tilheyra iðnfræðingar hinum ýmsu stéttafélögum, aðallega þó RSÍ og VM og því erfitt fyrir okkur að starfa undir hatti einhvers eins stéttafélags.
Það er okkur iðnfræðingum mjög mikilvægt að starfsemi IFÍ sé haldið gangandi. Iðnfræðingur er lögverndað starfsheiti og þarf að uppfylla fyrir fram tilgreind skilyrði um nám og sveinsbréf til að fá að kalla sig iðnfræðing. Þetta er ákveðin trygging fyrir vissum faglegum grunni og skilningi úti á vinnumarkaði. Það er á könnu Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins að halda utan um lögverndun starfsheitisins, en til að þeir séu viljugir til að gera það, krefjast þeir að það sé starfrækt fagfélag sem sér um umsagnir á umsóknum. Það er grunn tilgangur IFÍ. Ef ekki væri félag, þá gæti í raun hver sem er kallað sig iðnfræðing og við gætum ekkert sagt við því. Það myndi gjaldfella starfsheiti okkar.
Það er því mikilvægt að iðnfræðingar séu meðlimir í félaginu, greiði félagsgjöldin sem eru ekki há, 5.000kr. á ári.
Þessi gjöld ganga í sjóðinn okkar, sem er notaður til reksturs félagsins og þá sérstaklega þegar upp koma mál þar sem við þurfum að leigja inn lögfræðinga til að takast á við kærumál varðandi útboðsgögn eða lagabreytingar sem miða að því að skerða réttindi Iðnfræðinga.
Ef einhverjar spurningar brenna á fólki, þá má endilega senda okkur póst í ifi@ifi.is
Kv.
Formaður